B. Söluyfirlit

Samkvæmt lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa hvílir sú skylda á fasteignasala að útbúa söluyfirlit. Söluyfirlitið er mjög mikilvægt skjal sem fasteignasali ber ábyrgð á að sé rétt og hefur að geyma rækilegt yfirlit um þau atriði sem skipt geta máli við sölu eignarinnar. Áður en tilboð er gert í eign skal væntanlegum tilboðsgjafa (kaupanda) afhent söluyfirlitið og á hann með nafnritun sinni að staðfesta móttöku söluyfirlitsins. Innihald söluyfirlitsins ásamt rækilegri skoðun eignarinnar má ætla að sé grundvöllur ákvörðunar um kaup eignarinnar og hvaða verð kaupandi er tilbúinn að greiða.

Fasteignasali á sjálfur að afla upplýsinga sem fram eiga að koma í söluyfirliti. Sækir hann upplýsingar í opinberar skár og skýrslur ef unnt er, en ástand fasteignar, gerð hennar og búnað sem fylgja á við sölu skal hann kynna sér af eigin raun.
Mikilvægt er að kaupandi hugi mjög vel að þessum þætti í ferlinu og fái nauðsynlegar skýringar frá fasteignasala sínum á öllu því í söluyfirlitinu sem hann telur sig ekki hafa nægar upplýsingar um. Á söluyfirliti á einnig að vera til staðar yfirlýsing seljanda að söluyfirlitið sé rétt og samkvæmt bestu vitund hans. Sé söluyfirlit rangt eða villandi getur fasteignasali orðið ábyrgur gagnvart kaupanda sýni hann af sér gáleysi við gerð þess.

Í söluyfirliti þarf auk almennrar lýsingar m.a. að koma fram:

a.
söluverð það sem eigandi óskar að fá fyrir eign sé það ákveðið,

b.
staðsetning eignar og númer, stærð hennar samkvæmt opinberum skrám, fasteignamat, brunabótamat, byggingarlag og byggingarefni og byggingarár eignar og einstakra hluta hennar ef við á; teikning sem sýni fyrirkomulag innan húss skal jafnan vera fyrir hendi, svo og lóðaruppdráttur sé hann til,

c.
upplýsingar um ástand eignar og einstakra hluta hennar, þar á meðal um galla sem seljanda og/eða fasteignasala er kunnugt um á eign,

d.
föst gjöld af eigninni, áhvílandi veðskuldir, kvaðir og önnur eignahöft, samkvæmt veðbókarvottorði; tilgreina skal eftirstöðvar og lánskjör, þar á meðal vexti og verðtryggingu allra áhvílandi veðskulda og kvaða og tilgreina sérstaklega ef skuld er í vanskilum; um þær veðskuldir sem fylgja eiga við sölu skal tilgreina fjölda ógreiddra afborgana,

e.
kostnaður sem kaupandi hefur af kaupum, þar á meðal þinglýsingarkostnaður, stimpilgjöld,umsýslukostnaður kaupanda, lántökukostnaður sé það unnt o.fl.

f.
tekjur af eigninni ef um er að ræða eign sem ætluð er til atvinnustarfsemi,

g.
afhendingarástand eignar sem seld er ófullgerð, og skal það vera í samræmi við staðla sem út eru gefnir af opinberum stofnunum er annast byggingarrannsóknir eða byggingareftirlit,

h.
húsgjöld og yfirstandandi eða væntanlegar framkvæmdir sem búið er að ákveða á fundi húsfélags, sé um fjöleignarhús að ræða, og um stöðu eiganda gagnvart hússjóði og framkvæmdasjóði húsfélags,

i.
eignaskiptayfirlýsing eða samningur sé um fjöleignarhús að ræða,

j.
önnur atriði sem kunnugt er um, svo sem skýrslur um ástand eignar sem gerðar hafa verið.

Algeng vandamál sem komið hafa upp vegna söluyfirlits

Nokkuð hefur borið á að tveir eftirfarandi þættir hafi valdið ágreiningi og kaupendur ekki talið að þeirra hafi verið getið með nægjanlegum skýrum hætti.

1) Yfirlýsing húsfélags
Mikilvægt er að fyrir liggi yfirlýsing húsfélags m.a. um húsgjöld, yfirstandandi eða væntanlegar framkvæmdir sem búið er að ákveða á fundi húsfélags , stöðu eiganda gagnvart hússjóði og framkvæmdasjóði húsfélags. Þarna er um mikilvægan þátt að ræða sem huga þarf vel að. Það skiptir að sjálfsögðu kaupanda miklu að hafa þessar upplýsingar réttar. Slíkar upplýsingar þurfa að liggja fyrir af hálfu gjaldkera/formanns húsfélags og gæta þarf vel að því að upplýsingarnar séu nýjar. Seljandi þarf einnig að staðfesta að þessar upplýsingar séu réttar.

2) Skiptasamningar:
Lögum samkvæmt eiga vera til skiptasamningar um öll fjöleignarhús til þess að hægt sé að selja einstaka hluta þess.