
Frá Félagi fasteignasala
Efni: Alvarlegir meinbugir á eftirliti með peningavætti í fasteignaviðskiptum
Í framkvæmd hefur Skatturinn á s.l. misserum sýnt fádæma hörku gagnvart skyldum fasteignasala að hindra að peningaþvætti eigi sér stað í fasteignaviðskiptum og sektað fasteignasölur um háar fjárhæðir vegna óverulegra galla á formsatriðum.
Upplifunin er klárlega sú að þar sem Ísland var á gráum lista fyrir nokkrum árum vegna ófullnægjandi peningavarna sé ríkur vilji að sýna hörku þannig að FAFT (alþjóðlegur fjármálaaðgerðarhópur gegn peningaþvætti) sé upplýstur reglulega að engum vettlingatökum sé beitt að hindra að peningar séu þvættaðir í gegnum fasteignaviðskipti.
Viðurhlutamiklar kröfur eru lagðar á fasteignasala að hindra að peningar séu þvættaðir í gegnum fasteignakaup, liggur þar mikil vinna að baki.
Standi vilji brotamanna til að þvætta fé í gegnum fasteignaviðskipti sneiða þeir vitaskuld fram hjá fasteignasölum og láta aðra en fasteignasala ganga frá viðskiptunum eða sinna því sjálfir.
Regluverkið er galopið en þarna liggur stærsti áhættuþáttur peningaþvættis í gegnum fasteignaviðskipti. Félag fasteignsala hefur bent starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins og Skattinum á að eftirlitið sé á alvarlegum villigötum án nokkurra undirtekta - FAFT yrði örugglega illa brugðið ef áttuðu sig á svo stórfelldum ágöllum á peningaþvættisvörnum og algeru sinnuleysi stjórnvalda að bregðast við.
Eitt er víst að trúverðugleiki gagnvart peningaþvættisvörnum í fasteignaviðskiptum er alvarlega laskaður, stjórnvöld geta ekki hundsað slíkar viðvaranir.
< Til baka