< Til baka

Hvað þarf seljandi að hafa í huga við kaup á fasteign?

Við sölu á fasteign er seljandi oft að selja sína stærstu fjárfestingu. Þá er seljandi oft bundinn eigninni tilfinningaböndum, sérstaklega ef hann hefur búið í eigninni í lengri tíma. Það er aðilum oft þungbært þegar upp kemur ágreiningur vegna fasteignaviðskipta og því mikilvægt að vanda sig í og við sölu fasteignar.


Upplýsingaskylda seljanda

Seljendur bera ríka upplýsingaskyldu við sölu eigna. Seljanda bera að upplýsa um allt það sem kann að skipta kaupanda máli að vita. Sem dæmi um það eru annmarkar á eign, skipulagsbreytingar sem áhrif geta haft á eignina eða útsýni úr henni, vandamál í fjöleignarhúsi ef um það er að ræða og sömuleiðis ef rætt hefur verið um framkvæmdir á vettvangi húsfélags.

Oft lætur seljandi þessar upplýsingar frá sér munnlega til kaupanda eða fasteignasala en ef svo kemur upp ágreiningur um hvort þessar upplýsingar hafi skilað sér til kaupanda þá ber seljandinn sönnunarbyrðina fyrir því. Seljandi á því að setja allar slíkar upplýsingar í söluyfirlit fasteignarinnar eða koma þeim á annan hátt skriflega til tilboðsgjafa.

Komi í ljós eftir sölu að seljandi hafi ekki sagt frá einhverju sem máli skiptir eða gefið óvart eða vísvitandi rangar upplýsingar þá ber seljandi ábyrgð á þeim þáttum sem það varðar.


Kauptilboð – bindandi kaupsamningur

Þegar búið er að gera tilboð sem hefur verið samþykkt þá er kominn á bindandi samningur um fasteignakaup. Mikilvægt er því að seljandi lesi vel yfir tilboðið áður en hann skrifar undir það. Kauptilboð sem hefur verið samþykkt telst þá bindandi kaupsamningur sem ekki verður hnikað frá nema báðir aðilar samþykki.


Fyrirvarar

Séu fyrirvarar í kauptilboðinu og þeir ganga ekki eftir innan tímafrests sem þar er settur (annars á við tveggja mánaða frestur) þá fellur kauptilboðið/kaupsamningurinn niður. Það er því mikilvægt fyrir seljanda sem hefur sett fyrirvara í kauptilboð að hann tilkynni kaupanda um það þegar atvik fyrirvarans hafa gengið eftir. Seljandi þarf því að gæta þess að ekki sé farið fram yfir frestinn því annars fellur samningurinn sjálfkrafa niður.

< Til baka